Dienstag, 28. Januar 2014

1. Leynihekl Woollen Thoughts: Vísbending 4 og Uppljóstrun


Fjórða og síðasta vísbendingin í leyniheklinu hefur verið send út, eftir þessa eiga þátttakendur að hafa heklað 9 hluti, eins og sjá má á myndinni hér að neðan.
Sumsé 1 bolta, 1 keilu, 2 ófyllt eyru úr vísbendingu 1, 2 tvílita anga, 2 einlita anga og einn lítið fylltan einlitan anga í B litnum.

Ég sé á myndunum að það eru margar búnar að fatta hvað við höfum verið að vinna við að gera allan þennan tíma....

En ég beið með að segja ykkur strax hvað þetta væri, til að sýna líka að það má raða upp á ýmsan máta og eflaust fá hugmyndir hvað hægt er að gera úr þessum grunnformum annað. Til dæmis með að breyta stækka lengja :) Það þarf aðeins að kunna nokkur grunnform í amigurumi gerð og þá er hugmyndaraflinu engin landamæri sett. 

En komum við nú að samsetningunni.....


Þetta verður hin fínasta leðurblaka.......Leðurblaka???? Hún lofaði að þetta væri krúttlegt kríli.... ojjj lítur ekki krúttlegt út svonanei nei .......


Auðvitað er réttara að leggja hlutina svona út, og úr verður krúttleg kanína

Já það er rétt, við erum að gera litla kanínu með löng krúttuleg eyru :)Nú á bara eftir að blása lífi í hana með að sauma alla hluta á réttan stað og andlitið. En ég bíð alltaf með að sauma andlitið á í lokin, sumir sauma það strax á, áður en þeir setja saman dúkkurnar, en það er bara smekksatriði. Það er svo gaman að sjá muninn á dúkku án andlits samsettri og þegar hún er komin með andlitið sitt, þá fyrst er karakterinn kominn og hún "lifnuð við" :)

Mörgum kvíður fyrir að sauma saman, þeim finnst gaman að hekla alla hluta en eru eitthvað smeykir við að sauma vitlaust saman og eyðileggja alla dúkkuna. En ekki óttast þennan hluta, þetta er hlutinn sem þú ert búin að bíða eftir allan tíman á meðan á heklinu stóð. Þetta er hlutinn sem lætur krílið þitt lifna við í.

Best er að notast fyrst við títuprjóna og festa þannig hlutana á og sjá hvernig þetta lítur sem best út. Það mætti einnig taka snögga mynd af krílinu títuðu niður til að miða við. Ekki vera stressuð að vera að sauma þetta vitlaust saman, það má alltaf rekja upp og sauma aftur :)

http://www.lionbrand.com/patterns/60480A.html?noImages=


Svona lítur kanínan út í upprunalegu uppskriftinni frá Lion Brand, sem ég fékk leyfi til að þýða og nota á þennan hátt. Uppskriftina má finna hér og kallast hún Best Bunny.Kanínan notar skottið sitt til að halda jafnvægi og getur þar af leiðandi setið óstudd. Til að finna þennan punkt og stöðu fótleggja og skotts svo hún geti staðist, er einmitt gott að notast við títuprjóna fyrst, og títa hlutina fasta á búkinn.

En við byrjum að sauma saman búkinn við höfuðið, þess vegna átti að fela endann á höfðinu (boltanum) og klippa frá en skilja langan spotta eftir á búknum til að sauma með.

http://www.freshstitches.com/hate-attaching-limbs-to-amigurumi-not-after-reading-this-post/

Fresh stitches er með mjög gott tutorial í myndum sem sýnir vel hvernig best er að sauma saman amigurumi dúkkur. Þetta er líka frábær síða með mörgum gullkornum fyrir hekl.


Svona lítur kanínkan mín út að aftan


og svona að framan. 

Ég átti ekki nógu lítil öryggisaugu svo ég saumaði andlitið á hana, en lion brand útgáfan notast við öryggisaugu. Einnig mætti notast við tölur fyrir augun, eða filt. Hér nota ég frekar ljósan grunnlit, en ef þið eruð með dekkri grunnlit þá ráðlegg ég ykkur að nota ljósan lit til að sauma á andlitið. Ef þið eruð á ravelry eru tæp 1000 projects inni með þessari kanínu. Þið getið kíkt þar líka til að sjá fleiri myndir af fullgerðum kanínum. Link á Ravelry.

Lionbrand er með fjölmargar fríar uppskrifitr bæði fyrir hekl og prjón. Ef slegið er inn leitarorðið Amigurumi koma upp 150 uppskriftir. Það má vel vera að við heklum eitthvað annað saman frá Lionbrand, þar sem ég hef fengið leyfi til þess einnig. Þessi kanína er ein af vinsælustu uppskriftunum þeirra. Þið getið kommentað hér fyrir neðan hvað þið mynduð vilja hekla næst frá Lionbrand og yfir höfuð hvernig ykkur fannst leyniheklið og hvort þið mynduð vilja taka aftur þátt. Finnst ykkur leynihekl skemmtilegra en venjulegt samhekl? Hvort mynduð þið vilja næst aftur leynihekl eða samhekl, og þá hvernig? Aftur svona amigurumi eða eitthvað annnað? :) Endilega látið mig vita hér sem komment, eða á facebook skilaboðum.

Allir þátttakendur fá svo senda heildaruppskriftina í einu skjali. Þá stendur t.d. eyru í stað vísbending 1 :) og einnig er heimildin uppgefin og slóðin á lionbrand. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt og ég vona að þið eigið eftir að hekla fullt af amigurumi dúkkum núna :) Margar gerðu 2 í einu og ég hlakka ekkert smá til að sjá svo allar kanínurnar fullgerðar. En ég ætla að útbúa myndasýningu með öllum myndum sem hafa borist inn fyrir 10. febrúar. 

Ég vil biðja ykkur að deila ekki þýddri uppskriftinni úr þessu leynihekli, heldur frekar benda á ensku uppskriftina. Þýðing þessi var einungis hugsuð privat fyrir þátttakendur leyniheklsins.

Ég vona þið séuð hrifin af uppljóstruninni og hafið haft gaman af. 

Kommentare:

❤❤❤ Thank you for taking your time to leave a comment ❤❤❤